Monday, January 20, 2014

Karrýfiskur með hrísgrjónum

Ég er svo heppin að eiga bróðir sem er sjómaður og fæ því alltaf nóg af fisk, frystirinn hjá mér er fullur af ýsu, þork og skötusel og er ég alltaf að reyna að finna góðar fiskuppskriftir til að prófa, svona svo maður fái ekki leið á því að borða alltaf það sama.
Þessa uppskrift fann ég í gamalli möppu síðan ég var í grunnskóla, ég er reyndar búin að breyta henni, þannig að hérna er mín uppskrift af karrýfisk með hrísgrjónum, sveppum, eplum og ananas.
(Ég skrifa ekki mælieiningar fyrir sveppina, eplin og ananasinn en ég notaði 4 stóra sveppi, 3/4 epli og eina litla dós af anaskurli, en þetta er allt eftir smekki hvers og eins. :) )

1 fiskiflak
2 dl. hrísgrjón (ég notaði einn 125 gr. poka)
2 dl súrmjólk, allt í lagi líka að nota AB mjólk
4 msk létt majónes
2 tsk. karrý
salt
svartur pipar
sveppir
grænt epli
ananaskurl
og rifinn ostur

Hitið ofninn í 200°C
Sjóðið hrísgrjónin  og á meðan hrærið saman í skál súrmjólk, léttmajónes, karrý og salt.
Setjið soðin hrísgrjónin í smurt, eldfast mót. Skerið fiskinn í bita, saltið og piprið og raðið honum yfir hrísgrjónin. Skerið eplið í bita og sveppina í sneiðar og dreifið yfir fiskinn ásamt ananaskurlinu.
Hellið karrýsósunni yfir réttinn og bakið í miðjum ofni við 200°C í 20-30 mín.
Stráið osti yfir réttinn og bakið áfram þar til osturinn hefur fengið fallegan lit.


 Sósan tilbúin
 Hrísgjónin og fiskurinn komin í eldfast mót.
 Sveppum, epli og ananas dreift yfir..
 og sósunni.
Tilbúinn.. hann var svo góður og gott að borða hvítlauksbrauð með :)