Við erum orðin algjörlega háð þessu hrökkbrauði á okkar heimili, þannig að þegar það klárast er ég fljót að henda í aðra uppskrift.
Þetta er algjör snilld, ofur einfalt að gera, tekur enga stund og er ótrúlega gott og ekki skemmir fyrir hvað þetta er hollt líka :)
Mér finnst best að borða þetta eintómt og drekka appelsínusafa með en það er bara smekksatriði :)
1 dl. sólblómafræ
1 dl. graskersfræ
1 dl. sesamfræ
1 dl. hörfræ
1 dl. haframjöl
3 1/2 dl. heilhveiti
1 1/4 dl. olía (ég nota bragðlausa olíu (isio 4), þar sem ég vil láta bragðið af fræunum að njóta sín)
2 dl. vatn
2 tsk. maldon salt
Öllu blandað saman í skál og hrært þangað til allt er vel blandað saman. Setjið helminginn af deiginu á bökunarpappír og annan pappír yfir og fletjið út með kökukefli þangað til þunnt. Takið efri pappírinn af og skerið deigið í hæfilega stóra bita. Bakið í ofni við 200°C í 10-15 mín eða þangað til deigið er aðeins farið að taka á sig gullin lit (á að vera stökkt og gott). Endurtakið með hinn helminginn af deiginu.
Öll fræin og haframjölið.
Öllu blandað saman í skál og hrært vel saman.
Helmingurinn af deiginu á milli bökunarpappírs.
Búið að fletja deigið þunnt út og svo skorið áður en það er bakað.
Hrökkbrauðið tilbúið.