Sunday, February 17, 2013

Hrökkbrauð

Ég og mamma mín erum voða duglegar að skiptast á uppskriftum og þessa uppskrift fékk ég einmitt hjá henni.
Við erum orðin algjörlega háð þessu hrökkbrauði á okkar heimili, þannig að þegar það klárast er ég fljót að henda í aðra uppskrift.
Þetta er algjör snilld, ofur einfalt að gera, tekur enga stund og er ótrúlega gott og ekki skemmir fyrir hvað þetta er hollt líka :)
Mér finnst best að borða þetta eintómt og drekka appelsínusafa með en það er bara smekksatriði :)

1 dl. sólblómafræ
1 dl. graskersfræ
1 dl. sesamfræ
1 dl. hörfræ
1 dl. haframjöl
3 1/2 dl. heilhveiti
1 1/4 dl. olía (ég nota bragðlausa olíu (isio 4), þar sem ég vil láta bragðið af fræunum að njóta sín)
2 dl. vatn
2 tsk. maldon salt

Öllu blandað saman í skál og hrært þangað til allt er vel blandað saman. Setjið helminginn af deiginu á bökunarpappír og annan pappír yfir og fletjið út með kökukefli þangað til þunnt. Takið efri pappírinn af og skerið deigið í hæfilega stóra bita. Bakið í ofni við 200°C í 10-15 mín eða þangað til deigið er aðeins farið að taka á sig gullin lit (á að vera stökkt og gott). Endurtakið með hinn helminginn af deiginu.

Öll fræin og haframjölið.
Öllu blandað saman í skál og hrært vel saman.
Helmingurinn af deiginu á milli bökunarpappírs.
Búið að fletja deigið þunnt út og svo skorið áður en það er bakað.
Hrökkbrauðið tilbúið.


Thursday, February 7, 2013

Bananafiskur með beikonsósu

Ég fann þessa uppskrift í heimilsfræðimöppu úr 9. bekk. Ég ákvað að prufa þó svo að mér fyndist frekar skrítið að hafa fisk og banana saman, en það kom á óvart :)
Systir mín kom í mat til okkar og leist henni ekkert á þetta, en ég held að henni hafi fundist þetta gott þar sem að mamma hringdi nokkrum dögum seinna og bað um uppskriftina :)

Innihald:
ca. 600 gr. ýsuflök
hveiti
salt og pipar
olía til steikingar
2 bananar

Sósa:
6 beikonsneiðar
1 laukur
250 gr. sveppir
1-2 tsk. karrý
1/2 dl. vatn
1 dl. matreiðslurjómi
salt og pipar

Skerið fiskinn í hæfilega bita. Setjið hveiti á disk og kryddið með salti og pipar, veltið fiskinum upp úr hveitinu. Steikið fiskinn í olíunni og setjið í eldfast mót og haldið honum heitum í ofni.
Afhýðið og sneiðið banana. Brúnið þá í olíunni og setjið ofan á fiskinn inn í ofn.

Sósan:
Skerið beikonið í litla bita og laukinn smátt. Sneiðið sveppina. Steikið svo beikonið á þurri pönnu. Bætið lauknum út á pönnuna og því næst sveppunum. Stráið karrý yfir (athugið vel styrkleikann á karrýinu).
Hellið vatni og rjóma á pönnuna (ég set aðeins meira en uppskriftin segir til um) og smakkið til með salti og pipar.

Gott er að bera fram með þessu hrísgrjón og salat.

Laukur, sveppir, beikon og bananar skorið niður.
Fisknum velt upp úr hveiti blöndunni.
Bananarnir steiktir og settir ofan á fiskinn og haldið heitu inní ofni.
      Beikon, laukur og sveppir steikt á pönnu ásamt karrýi.   Sósan tilbúin.
Gott með hrísgrjónum og salati :)


Saturday, February 2, 2013

Naan brauð

Ég fann þessa uppskrift á sama tíma og indversku kjúklingasúpuna, enda passar þetta tvennt einstaklega vel saman og reyni ég alltaf að baka ferskt naan brauð með súpunni, þá sérstaklega ef ég er með gesti :)
Ég myndi segja að þetta sé frekar stór uppskrift enda baka ég yfirleitt bara hálfa uppskrift, ég fæ 10 brauð út úr því og nægir það alveg fyrir 4.
Ég hef líka prófað að sleppa garam masala kryddinu og hvítlauknum og haft kókos  eða kókos og rúsínur í staðinn, það er líka mjög gott, bara aðeins meira vesen þar sem ég er með það inní brauðinu og flet það þá út, dreifi kókos og rúsínum á helminginn og set svo hinn helminginn yfir og flet aftur út.
En það er bara um að gera að prófa sig áfram og finna það sem manni þykir best.

2 dl. mjólk
2 msk. sykur
1 poki þurrger eða 5 tsk.
600 gr. hveiti
1 tsk. salt
2 tsk. lyftiduft
4 msk. olía
1 dós hrein jógúrt (180 gr.)

1 msk. maldon salt
1 msk. garam masala
25 gr. smjör
1-2 hvítlauksrif

Byrjið á því að hita ofninn í 200°C (stendur 275°C í uppskrifinni en ég hef alltaf haft 200°C)

Setjið ger og sykur í skál og hellið volgri mjólk yfir, leysið gerið og sykurinn uppí mjólkinni.
Blandið síðan hveiti, salti, lyftidufti, olíu og jógúrt saman við germjólkina. Hnoðið deigið þar til það verður mjúkt en bætið aðeins hveiti ef það er of blautt. Látið deigið hefast í skál í 1 klst. við stofuhita.
Blandið maldon saltinu og garam masala á disk.
Þegar deigið er búið að hefast, takið það og skiptið niður í litla hluta og hnoðið kúlur úr þeim. (Ég geri 10 kúlur úr 1/2 uppskrift) Fletjið síðan kúlurnar út nokkuð þunnt og þrýstið þeim ofan í kryddblönduna.
Setjið brauðin á plötu klædda bökunarpappír og bakið við 200°C í ca. 5-7 mín eða þar til þau eru orðin gullin brún.
Bræðið smjörið ásamt pressuðum hvítlauk saman í pott og dreypið yfir brauðin þegar þau koma úr ofninum (ég set smá brætt smjör áður en ég baka þau og svo aftur þegar þau koma út úr ofninum)

Brauðin eru best alveg fersk, en ef það er afgangur þá mæli ég með því að hita þau í smá stund á heitri pönnu, þau verða mjög góð þannig :) (alls ekki örbylgju, þau verða mjög seig)

Gerið og sykurinn leyst upp í volgri mjólkinni.
Deigið látið hefast í skálinni í 1 klst.
Búið að dýfa brauðunum í kryddblönduna og tilbúin til að baka.
Brauðin tilbúin og búið að smyrja þau með hvítlaukssmjörinu.

Friday, February 1, 2013

Indversk kjúklingasúpa

Ég er rosalega hrifin af súpum og held ég geti alveg sagt að þetta er mín uppáhalds súpa.
Fann þessa uppskrift á netinu fyrir ca. 2 árum og féll strax fyrir henni, eina er að ég geri hana alltof sjaldan.
Mér finnst langbest að bera hana fram með sýrðum rjóma og ferskjum og heimatilbúnu nan brauði (set uppskrift af því hér inná á morgun). :)

1 sæt kartafla
1-2 msk. olía
1 laukur eða rauðlaukur
Börkur af hálfri sítrónu
2-3 hvítlauksrif
1/4 tsk. cayenne pipar
500-600 gr. kjúklingabringur
1 msk. karrý
1 l. kjúklingakraftur (vatn og teningur)
sjávarsalt
1 dós (400 ml. fituskert kókosmjólk
1 dós soðnar kjúklingabaunir
fersk kóreanderlauf

1 dós sýrður rjómi
1/2 lítil dós niðursoðnar ferskjur

Byrjið á því að undirbúa með því að saxa laukinn, skera kartöflurnar í teninga, takið utan af hvítlauksrifunum og skerið kjúklinginn í bita.
Hitiði olíu í frekar stórum potti. Byrjið á því að steikja kartöfluteningana þangað til smá mjúkir, bætið þá lauknum út í og hrærið þangað til hann fer að mýkjast.
Rífið sítrónubörkinn ofaní, pressið hvítlaukinn og bætið við ásamt cayenne piparnum. Látið krauma í 2-3 mín.
Setjið nú kjúklingabitana saman við og steikið með í nokkrar mínútur. Stráið karrý yfir og hrærið vel saman.
Hellið kjúklingasoðinu yfir og látið suðuna koma upp, bragðbætið með salti og sjóðið í ca. 5 mínútur.
Látið þá renna af kjúklingabaununum og hellið þeim ásamt kókosmjólkinni útí pottinn og látið malla vel í 6-8 mínútur í viðbót.
Saxið niður ferskan kóreander og stráið yfir rétt áður en súpan er borin fram.

Setjið 1 dós af sýrðum rjóma í skál og hrærið, takið niðursoðnu ferskjurnar, þurrkið aðeins af þeim með eldhúspappír og skerið þær í litla bita og hrærið við sýrða rjómann.
Mjög gott að setja eina skeið af þessu út á súpuna og borða nan brauð með :)

Innihaldið í súpuna. Ég bætti smá papriku útí líka :)
Kjúklingurinn, grænmetið og kryddin komin í pottinn.  Kjúklingasoðinu bætt útí.
Súpan tilbúin og sýrði rjóminn kominn útí.. algört æði :)