Ég myndi segja að þetta sé frekar stór uppskrift enda baka ég yfirleitt bara hálfa uppskrift, ég fæ 10 brauð út úr því og nægir það alveg fyrir 4.
Ég hef líka prófað að sleppa garam masala kryddinu og hvítlauknum og haft kókos eða kókos og rúsínur í staðinn, það er líka mjög gott, bara aðeins meira vesen þar sem ég er með það inní brauðinu og flet það þá út, dreifi kókos og rúsínum á helminginn og set svo hinn helminginn yfir og flet aftur út.
En það er bara um að gera að prófa sig áfram og finna það sem manni þykir best.
2 dl. mjólk
2 msk. sykur
1 poki þurrger eða 5 tsk.
600 gr. hveiti
1 tsk. salt
2 tsk. lyftiduft
4 msk. olía
1 dós hrein jógúrt (180 gr.)
1 msk. maldon salt
1 msk. garam masala
25 gr. smjör
1-2 hvítlauksrif
Byrjið á því að hita ofninn í 200°C (stendur 275°C í uppskrifinni en ég hef alltaf haft 200°C)
Setjið ger og sykur í skál og hellið volgri mjólk yfir, leysið gerið og sykurinn uppí mjólkinni.
Blandið síðan hveiti, salti, lyftidufti, olíu og jógúrt saman við germjólkina. Hnoðið deigið þar til það verður mjúkt en bætið aðeins hveiti ef það er of blautt. Látið deigið hefast í skál í 1 klst. við stofuhita.
Blandið maldon saltinu og garam masala á disk.
Þegar deigið er búið að hefast, takið það og skiptið niður í litla hluta og hnoðið kúlur úr þeim. (Ég geri 10 kúlur úr 1/2 uppskrift) Fletjið síðan kúlurnar út nokkuð þunnt og þrýstið þeim ofan í kryddblönduna.
Setjið brauðin á plötu klædda bökunarpappír og bakið við 200°C í ca. 5-7 mín eða þar til þau eru orðin gullin brún.
Bræðið smjörið ásamt pressuðum hvítlauk saman í pott og dreypið yfir brauðin þegar þau koma úr ofninum (ég set smá brætt smjör áður en ég baka þau og svo aftur þegar þau koma út úr ofninum)
Gerið og sykurinn leyst upp í volgri mjólkinni.
Deigið látið hefast í skálinni í 1 klst.
Búið að dýfa brauðunum í kryddblönduna og tilbúin til að baka.
Brauðin tilbúin og búið að smyrja þau með hvítlaukssmjörinu.
No comments:
Post a Comment