Wednesday, January 30, 2013

Bananakaka

Þar sem ég á það oft til að kaupa nokkra banana og gleyma svo að borða þá, þá verða þeir bara svartir á borðinu hjá mér. Ég vil alls ekki henda þeim, enda best að baka úr vel þroskuðum bönunum, þá finnst mér voða gott að eiga þessa uppskrift, sem kemur frá langömmu minni, þar sem ég á oftast allt í hana.
Kakan er mjög einföld og tekur enga stund að búa til og mér finnst hún yfirleitt best daginn eftir að ég baka hana eða þess vegna daginn þar á eftir :)

100 gr. smjör
150 gr. sykur
2 egg
170 gr. hveiti
2 tsk. lyftiduft
smá salt
3 þroskaðir bananar

Súkkulaðikrem:
150 gr. súkkulaði (56%)
30 gr. smjör
2 msk. sýróp

Byrjið á því að hita ofninn í 180°C og smyrjið ca. 23cm hring kökuform með smjöri.

Blandið sykri og smjöri (við herbergishita) saman í skál og hrærið vel, bætið svo einu eggi í einu út í og hrærið áfram þangað til blandan er þykk og ljósgul.
Svo er hveitið, lyftiduftið og saltið sigtað útí blönduna, bananarnir eru stappaðir með gaffli og bætt út í.
Þetta er svo hrært varlega, þangað til allt er vel blandað saman. Hellið þá deiginu í kökuformið og bakið við 180°C í ca. 50 mínútur. Ég sting alltaf hníf í miðja kökuna til að athuga hvort hún sé tilbúin :)

Súkkulaðikremið er mjög einfalt, blandið súkkulaðinu, smjörinu og sýrópinu saman í pott og bræðið saman. Hellið svo yfir kökuna þegar hún er búin að fá að kólna aðeins og berið fram með rjóma.

Innihaldið 
Smjör, sykur og egg vel hrært saman. Þurrefnin sigtuð ofaní eggjablönduna.   
Kakan tilbúin til að fara inní ofn. 
Súkkulaði, smjör og sýróp brætt saman í potti.
Kakan tilbúin og borin fram með smá rjóma :)



Wednesday, January 16, 2013

Lasagne

Hér er uppskrift af einföldu en mjög góðu lasagne, ég er mun hrifnari af því að gera lasagne frá grunni heldur en að búa bara til úr pakka, verður alltaf betra finnst mér :)
Einnig finnst mér sniðugt að elda svolítið of mikið af því og borða þá í afgang næsta dag eða setja í frysti og borða seinna. Ég bætti smá auka grænmeti í lasagne-að mitt en set það ekki inní uppskriftina hér að neðan þar sem að það er alveg eftir smekk hvort maður vill það eða ekki.

Innihald fyrir ca. 4

Kjötsósan
500 gr. nautahakk
1 laukur, saxaður
100 gr. beikon, skorið í bita
1 dós tómatpúrra
1 dl. vatn
2-3 hvítlauksrif, saxað fínt
1 lítil dós "tómatsósa"
1 nautakraftsteningur
oregano
salt og pipar

Lasagne plötur
Rifinn ostur

Bechamel sósa
25 gr. smjör
30 gr. hveiti
mjólk
salt og pipar
ostur (eftir smekk, ég nota það sem ég á hverju sinni, ég notaði rjómaost og pepperóníost núna og kom það mjög vel út)

Byrjið á því að hita ofninn í 200°C.

Brúnið laukinn og beikonið á vel heitri pönnu, nautahakkinu er svo bætt við og brúnað. Því næst bætið við hvítlauksrifunum, tómatpúrrunni, nautakraftsteningnum og vatninu og blandið vel saman. Tómatsósunni er svo bætt út í og kryddað með oregano, salti og pipar eftir smekk.

Til þess að búa til bechamel sósuna setjið þá smjörið og hveitið saman í pott og hrærið vel saman, því næst er mjólkinni helt útí í smá skömmtum og hrært vel á milli svo að sósan verði ekki kekkjótt. Haldið þessu áfram þangað til þetta lítur út eins og frekar þykk súpa, bætið þá ostunum, salti og pipar eftir smekk.

Ég mæli með að leggja lasagne plöturnar í bleyti í kalt vatn í smá stund áður en lasagne-inu er raðað saman, það ætti að tryggja að þær séu eldaðar í gegn þegar osturinn er orðinn gullin brúnn.

Þá er bara að raða þessu öllu saman, byrja á kjötsósunni því næst ostasósunni og svo lasagne plötunum og enda á kjötsósu efst og strá svo rifnum osti yfir allt saman og baka í ofni við 200°C þangað til osturinn er gullin brúnn.

Gott að bera fram með fersku salati og hvítlauksbrauði.

Innihaldið
Byrjaði á því að brúna laukinn og beikonið og bætti svo hinu grænmetinu við.
Kjötsósan tilbúin.
Hveiti og smjör hrært vel saman.        Bechamel sósan tilbúin.
Lasagne-anu raðað saman.
Tilbúið til að fara inní ofn.
Nomm :)


Sunday, January 13, 2013

Fyllt kartöfluhýði

Eftir áramótamatinn átti ég nokkrar bökunarkartöflur í afgang og þar sem mig langaði ekki bara í venjulega bakaða kartöflu ákvað ég að prufa uppskrift sem ég sá í þátt hjá Nigellu.

Það sem þarf er:

Bökunar kartöflur
Vorlaukur
Sýrður rjómi
Ostur
Worcestershire sósa
Salt og pipar
og extra stökkt beikon til að toppa þær :)

Ég set engar mælieiningar með þar sem að þetta er bara mest eftir smekk. En svona til að gefa ykkur einhverja hugmynd þá var með 3 kartöflur og notaði 2 vorlauka, ca. 1-2 msk. sýrðan rjóma, ca. 100 gr. ost 1-2 tsk. worcestershire sósu og svo smá salt og aðeins meira af pipar.

Byrjið á því að þrífa kartöflurnar vel með köldu vatni og þurrka þær með hreinu viskastykki, bakið svo kartöflurnar í ofni við 200°C þangað til þær eru orðnar mjúkar alveg í gegn.
Skerið þær í tvennt og skafið úr karftöflunni með skeið ofan í skál og setjið hýðin (sem eiga að vera einskonar skál þegar búið er að skafa innan úr þeim) í eldfast mót.

Skerið vorlaukinn í bita og bætið út í skálina ásamt sýrðum rjóma, osti, worcestershire sósu og salti og pipar. Stappið þetta svo saman með gaffli og fyllið hýðin með blöndunni. Gott er að bæta smá meiri osti ofan á kartöflurnar. Svo eru þær bakaðar í ofni við 200°C þangað til osturinn er orðinn gullin brúnn.

Beikonið steikt extra vel og svo brotið niður í smá bita og stráð yfir kartöflurnar þegar þær eru tilbúnar.


Kartöflurnar bakaðar og orðnar mjúkar í gegn.
Búin að skafa innan úr kartöflunum og "skálarnar" tilbúnar.
Allt innihaldið komið í skál, svo er bara að stappa saman með gaffli.
Kartöflurnar tilbúnar til að fara aftur inní ofn.
Kartöflurnar tilbúnar og búið að toppa þær með beikoni, best finnst mér að leyfa þeim aðeins að kólna áður en þær eru borðaðar (með hýðinu og öllu) :)

Friday, January 11, 2013

Rauðar flauels bollakökur

Lengi hefur mig langað til að smakka red velvet cake og er ég búin að eiga þessa uppskrift, sem ég ætla að deila hér, í langan tíma. Loksins hafði ég mig í það að baka þær og get ég verið nokkuð viss þegar ég segi að þessar bollakökur verða mjög líklega aftur á borðum á þessu heimili, enda ótrúlega fallegar, dúnmjúkar og ekki skemmir að þær eru toppaðar með rjómaostakremi... nomm :)

Innihald í ca. 12 rauðar flauels bollakökur

Þurrefni:
3,2 dl. hveiti
3 tsk. kakó
1/4 tsk. matarsódi
1 tsk. lyftiduft
1/2 tsk. fínt salt
Blautt:
60 gr. smjör (við stofuhita)
2 1/2 dl. sykur 
2 stór egg
2 dl. ab mjólk eða súrmjólk (ég notaði ab mjólk)
2 tsk. hvítt edik (white vinegar) 
1 tsk. vanilludropar
1 tsk. rauður matarlitur

Rjómaostakrem:
60 gr. smjör (við stofuhita)
150 gr. rjómaostur (við stofuhita)
1 tsk. vanilludropar
250 gr. flórsykur (byrja á 160 gr. og bæta svo við eftir smekk)

Hitið ofninn í 175°C.
Blandið öllum þurrefnunum saman í skál. 
Takið svo aðra skál og hrærið saman smjör og sykur, bætið eggjunum saman við einu í senn og hrærið þangað til að þetta er ljósgult. Bætið þá ab mjólkinni, edikinu, vanilludropunum og rauða matarlitnum við og hrærið vel saman. Sigtið svo þurrefnin ofaní blautu blönduna og hrærið þangað til úr verður flauelsmjúk blanda :)
Bakið svo í ofni við 175°C í ca. 22 mínútur. 

Til að búa til rjómaostakremið eru öll hráefnin sett saman í skál og allt hrært saman. Leyfið kökunum alveg að kólna áður en kremið er sett á og ég mæli einnig með að kæla kremið þar sem það getur byrjað að leka út um allt ef það er of heitt. 

Þurrefnin sett saman í skál og svo sigtað yfir blautu blönduna.
Smjörið, sykurinn og eggin þeytt saman.
Blauta blandan tilbúin.. mjög rauð og flott.
Á leiðinni í ofninn og svo nýkomnar úr ofninum :)
Tilbúnar og toppaðar með rjómaostakremi og smá hjörtum :)



Friday, January 4, 2013

Mangókjúklingur

Þar sem að ég er afskaplega eirðarlaus þessa dagana og veit ekki alveg hvað ég á að gera við sjálfan mig þá ákvað ég að prufa þetta aftur, veit ekki hvort ég endist eitthvað, en hendi ef til vill einni og einni uppskrift hér inn þegar ég nenni.

Ætla að byrja á ofur einfaldri kjúklinga uppskrift.

6 kjúklingabringur
1 krukka Mangó Chutney milt
1/4 - 1/2 l. matreiðslurjómi
1 - 2 tsk. karrý
salt, pipar, olía og hvítlauksduft
(chili blanda, má sleppa)

Hitið ofninn í 200°C

Byrjað á því að skera kjúklingabringurnar í bita. Steikið svo bitana uppúr olíu á pönnu og kryddið með salti, pipar og hvítlauksdufti. Setjið svo bitana í eldfast mót.

Karrý, (smá chili blanda), mangó chutney og rjómi er soðið upp á pönnunni og svo hellt yfir kjúklinginn.
Eldað í ofni í ca. 20 mínútur við 200°c.

Gott að bera fram með hrísgrjónum, salati og nan brauði.


Innihaldið, mæli samt með að nota matreiðslurjóma :)

Kjúklingurinn í eldföstu móti og sósunni hellt yfir.

Kjúklingurinn tilbúinn með hrísgrjónum.