Friday, January 11, 2013

Rauðar flauels bollakökur

Lengi hefur mig langað til að smakka red velvet cake og er ég búin að eiga þessa uppskrift, sem ég ætla að deila hér, í langan tíma. Loksins hafði ég mig í það að baka þær og get ég verið nokkuð viss þegar ég segi að þessar bollakökur verða mjög líklega aftur á borðum á þessu heimili, enda ótrúlega fallegar, dúnmjúkar og ekki skemmir að þær eru toppaðar með rjómaostakremi... nomm :)

Innihald í ca. 12 rauðar flauels bollakökur

Þurrefni:
3,2 dl. hveiti
3 tsk. kakó
1/4 tsk. matarsódi
1 tsk. lyftiduft
1/2 tsk. fínt salt
Blautt:
60 gr. smjör (við stofuhita)
2 1/2 dl. sykur 
2 stór egg
2 dl. ab mjólk eða súrmjólk (ég notaði ab mjólk)
2 tsk. hvítt edik (white vinegar) 
1 tsk. vanilludropar
1 tsk. rauður matarlitur

Rjómaostakrem:
60 gr. smjör (við stofuhita)
150 gr. rjómaostur (við stofuhita)
1 tsk. vanilludropar
250 gr. flórsykur (byrja á 160 gr. og bæta svo við eftir smekk)

Hitið ofninn í 175°C.
Blandið öllum þurrefnunum saman í skál. 
Takið svo aðra skál og hrærið saman smjör og sykur, bætið eggjunum saman við einu í senn og hrærið þangað til að þetta er ljósgult. Bætið þá ab mjólkinni, edikinu, vanilludropunum og rauða matarlitnum við og hrærið vel saman. Sigtið svo þurrefnin ofaní blautu blönduna og hrærið þangað til úr verður flauelsmjúk blanda :)
Bakið svo í ofni við 175°C í ca. 22 mínútur. 

Til að búa til rjómaostakremið eru öll hráefnin sett saman í skál og allt hrært saman. Leyfið kökunum alveg að kólna áður en kremið er sett á og ég mæli einnig með að kæla kremið þar sem það getur byrjað að leka út um allt ef það er of heitt. 

Þurrefnin sett saman í skál og svo sigtað yfir blautu blönduna.
Smjörið, sykurinn og eggin þeytt saman.
Blauta blandan tilbúin.. mjög rauð og flott.
Á leiðinni í ofninn og svo nýkomnar úr ofninum :)
Tilbúnar og toppaðar með rjómaostakremi og smá hjörtum :)



No comments:

Post a Comment