Wednesday, January 30, 2013

Bananakaka

Þar sem ég á það oft til að kaupa nokkra banana og gleyma svo að borða þá, þá verða þeir bara svartir á borðinu hjá mér. Ég vil alls ekki henda þeim, enda best að baka úr vel þroskuðum bönunum, þá finnst mér voða gott að eiga þessa uppskrift, sem kemur frá langömmu minni, þar sem ég á oftast allt í hana.
Kakan er mjög einföld og tekur enga stund að búa til og mér finnst hún yfirleitt best daginn eftir að ég baka hana eða þess vegna daginn þar á eftir :)

100 gr. smjör
150 gr. sykur
2 egg
170 gr. hveiti
2 tsk. lyftiduft
smá salt
3 þroskaðir bananar

Súkkulaðikrem:
150 gr. súkkulaði (56%)
30 gr. smjör
2 msk. sýróp

Byrjið á því að hita ofninn í 180°C og smyrjið ca. 23cm hring kökuform með smjöri.

Blandið sykri og smjöri (við herbergishita) saman í skál og hrærið vel, bætið svo einu eggi í einu út í og hrærið áfram þangað til blandan er þykk og ljósgul.
Svo er hveitið, lyftiduftið og saltið sigtað útí blönduna, bananarnir eru stappaðir með gaffli og bætt út í.
Þetta er svo hrært varlega, þangað til allt er vel blandað saman. Hellið þá deiginu í kökuformið og bakið við 180°C í ca. 50 mínútur. Ég sting alltaf hníf í miðja kökuna til að athuga hvort hún sé tilbúin :)

Súkkulaðikremið er mjög einfalt, blandið súkkulaðinu, smjörinu og sýrópinu saman í pott og bræðið saman. Hellið svo yfir kökuna þegar hún er búin að fá að kólna aðeins og berið fram með rjóma.

Innihaldið 
Smjör, sykur og egg vel hrært saman. Þurrefnin sigtuð ofaní eggjablönduna.   
Kakan tilbúin til að fara inní ofn. 
Súkkulaði, smjör og sýróp brætt saman í potti.
Kakan tilbúin og borin fram með smá rjóma :)



No comments:

Post a Comment