Friday, September 23, 2011

Banana muffins

Ég er alltaf að leita að hinum fullkomnu muffins, þessum sem eru dúnmjúkar, með smá "crispy" topp og ekki of sætar og ég held að ég hafi fundið það í þessum. Ég fann uppskriftina á netinu en eins og venjulega breytti ég smá, þannig að hér er mín uppskrift :)

Innihald: (12 muffins)

1 1/2 bolli   hveiti
1 tsk.          matarsódi
1 tsk.          lyftiduft
1/2 tsk.       salt
3/4 tsk.       kanill

3 stk.          bananar, stappaðir
3/4 bollar    sykur (150 gr.)
1 stk.          egg, létt pískað
75 gr.         smjör, brætt
1/4 tsk.       vanilludropar

70 gr.         púðursykur
2 msk.        hveiti
1/4 tsk.       kanill
15 gr.         smjör, við stofuhita

Hitið ofninn í 190°C

Blandið saman í stóra skál, hveiti, matarsóda, lyftiduft, salt og kanil. Í aðra minni skál hrærið vel saman egginu, sykri, bönunum, vanilludropum og bræddu smjörinu.
Hellið svo bananablöndunni í skálina með hveitinu og hrærið þangað til allt er blandað saman. 
Setjið svo deigið í muffins form, passar í 12 form hjá mér.

Blandið svo saman í litla skál, púðursykri, 2 matskeiðum hveiti, kanil og 15 gr. smjöri og blandið vel saman. 
Dreifið þessu svo yfir muffinsið.

Bakið í 18-20 mín við 190°C. 



                                                    Innihaldið
                                   Bananablöndunni hellt í hveitiblönduna
              Púðursykurblandan kominn á allar muffinsin og þær á leiðinni í ofninn
                                Æðislega góðar með ísköldu mjólkurglasi :)






Wednesday, September 21, 2011

Tagliatelle með sveppum og brokkolí

Ég elska pasta, elda það reyndar mjög sjaldan en þegar það kemur fyrir verður þessi réttur oft ofarlega á listanum. Árið 2002 var ég á leiðinni heim frá Ítalí, við millilentum á Heathrow flugvelli og fengum okkur að borða. Ég pantaði mér tagliatelle með brokkolí og sveppum og fannst það svo gott, að eitt af því fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim var að prófa að búa til svona pastarétt og reyna að ná honum alveg eins, það tókst ekki í fyrstu tilraun en síðan þá hef ég eitthvað prófað mig áfram og þó ég muni nú ekki nákvæmlega hvernig þetta bragðaðist nú á Heathrow í denn þá finnst mér þessi réttur rosalega góður.

Ég ætla ekki að skifa niður magn á innihaldinu þar sem mér finnst þetta allt smekks atriði en set í sviga ca. magnið fyrir 2 (eins og ég geri)

Innihald :

Tagliatelle
Brokkolí (1 lítill haus skorinn í bita)
Sveppir (ca. 200 gr, skornir í tvennt)
Hvítlaukur (2-3 geirar mjög smátt saxaðir)
Rjómi (ca. 1/4 dl.)
Rjómaostur (1-2 msk)
Salt og pipar

Setjið vatn og smá salt í pott og þegar það fer að sjóða setjið þá tagliatelle útí (hrærið í því inná milli til að það festist ekki saman)
Ég byrja svo á því að lina brokkolíið á pönnunni í smá vatni, helli svo vatninu af og skelli sveppum, brokkolí og hvítlauk á pönnuna í smá olíu.
Steikið þetta þangað til að þetta er smá brúnað og hellið þá rjóma útá og bætið við smá rjómaosti, saltið og piprið eftir smekk. (ég nota stundum hvítlaukspipar ef mér finnst ekki nóg hvítlauks bragð :)

Þegar tagliatelle-ið er tilbúið, setjið það yfir í rjómasósuna og blandið vel saman.
Gott að bera fram með hvítlauksbrauði :)

                               Brokkolí, sveppir og hvítlaukur steikt á pönnu
                                                   Rjómasósan tilbúin
                                                    Æðislega gott :)

Saturday, September 17, 2011

Púðursykurmarensrjómakókosbollu ávaxtasúkkulaðiBOMBA

Ég var beðin um að baka 2 kökur fyrir skírn um daginn. Ég bakaði 2 marens tertur sem eru algjört æði en þvílíkar bombur og því eru þetta svona einu sinni á ári tertur :)

Uppskriftin af púðursykurmarens (2 botnar)

4 stk.      eggjahvítur
200 gr.    púðursykur
105 gr.    sykur

Öllu skellt saman í skál og blandað vel saman eða þangað til deigið er orðið þykkt og ljóst.
Teiknið 2 jafnstóra hringi á tvö blöð af bökunarpappír og skiptið svo deiginu jafnt á milli og fyllið upp í hringinn.
Bakið við 150°c í 40-60 mínútur.




Innihaldið á milli botnanna og ofaná :

1/2 l.      rjómi
4 stk.     kókosbollur
1 stórt    snickers
1 stórt    mars
Jarðaber, kiwi eða bláber eða hvaða ávextir sem þið viljið.

Byrjið á því að skera ávextina niður sem þið ætlið að nota.
Þeytið mest allan rjómann og smyrjið yfir allan neðri botninn (ég skil alltaf smá eftir, til að búa til sósuna ofan á kökuna, svo ég þurfti ekki að nota aðra fernu af rjóma).
Skerið svo kókosbollurnar í tvennt langsum og raðið ofan í rjómann. Bætið svo ávöxtunum að vild yfir og setjið hinn botninn ofaná.

Setjið snickers-ið, mars-ið og örlítið af rjóma í pott og bræðið saman. Leyfið sósunni aðeins að kólna áður en þið hellið yfir kökuna og skreytið svo með meiri ávöxtum.


                                           
                                             

Thursday, September 8, 2011

Ítalskar kjötbollur

Fann þessa uppskrift á youtube þegar mig langaði ótrúlega í ekta ítalskar kjötbollur. Mjög einföld og góð  uppskrift fyrir 4.

500 gr.    nautahakk
800 gr.    tómatsósa í dós
1 lítil dós  tómat púrra
2 stk.       egg
1 stk.       laukur, skorinn í bita
1/2 bolli   vatn
Brauðmylsna
Rifinn parmasen ostur
basillika, rifin eða skorin í bita
steinselja
olía
salt
pipar

Tómatsósan :
Hitið pönnu og hellið olíu útá, bætið við lauknum og basillikunni. Steikið í ca. 2 mínútur og bætið þá tómatsósunni, púrrunni og smá salti við og hrærið.
Eldið þetta á miðlungshita í 10 - 15 mínútur.

Á meðan er gott að búa til kjötbollurnar.
Setjið saman í stóra skál, nautahakk, brjótið eggin útí, smá salt og pipar, steinselja skorin smátt, parmasen osturinn og brauðmylsnan. (ekki setja of mikið af brauðmylsnu því þá verða bollurnar of þurrar.)
Blandið þessu vel saman með höndunum og búið svo til litlar bollur.

Setjið svo bollurnar útí tómatsósuna með smá bil á milli þeirra, hreyfið mjög varlega við þeim svo að þær brotni ekki í sundur. Hellið 1/2 bolla af vatni yfir og setjið lok á pönnuna.

Eldið í 5 mínútur og hrærið þá aðeins í pönnunni án þess að eyðileggja bollurnar.
Eldið svo bollurnar áfram í 15 mínútur og þá ættu þær að vera tilbúnar.
Gott að bera fram með spagetti :)

Innihaldið í bollurnar
                                                 Laukur og basillika
Tómatsósan og púrran komin útí
Bollurnar undirbúnar
                                                     Búið að móta bollurnar
                                           Bollurnar settar útí tómatsósuna
                          Það verður að vera spagetti með ítölskum kjötbollum
Spagettí og ítalskar kjötbollur.. bon appetit :)

Sunday, September 4, 2011

Frosinn jarðaberja daiquiri

Ég var búin að lofa vinkonum mínum kokteil kvöldi og stóð loks við það á föstudaginn. 
Ég ákvað að prófa að búa til jarðaberja daiquiri sem sló í gegn hjá okkur.
Ég fann uppskriftina á netinu og var hann alveg ótrúlega góður og frískandi. Langað að deila uppskriftinni og mæli algjörlega með þessum kokteil. 

Uppskrift fyrir 3-4 (3 stór glös eða 4 minni glös)

250 ml. Romm (ég notaði Bacardi limón)
140 ml. Lime safi 
80 gr.   Sykur 
450 gr. Frosin jarðaber


Setjið romm, lime safa og sykur í blandarann og blandið þangað til sykurinn er búinn að leysast upp. 
Bætið þá jarðaberjunum við (gott að setja í ca. þremur skömmtum ofaní blandarann) og blandið vel.
Má einnig bæta við klaka og sódavatni. Ég bætti örlitlu af hvoru í mína kokteila til að þynna hann smá.
Svo bara hellt í glös og njóta :)

                                                     Innihaldið
                                                 Fallegur litur á kokteilnum.
                                                     Ótrúlega góður kokteill.
Spilaði þetta drykkjuspil (sem ég bjó til, rosalega auðvelt að búa til og mjög skemmtilegt að spila við vini)  við vinkonur mínar og skemmtum við okkur konunglega. 


Wednesday, August 31, 2011

Möndlu og appelsínu Biscotti

Ég fann þessa uppskrift á netinu á ensku og ákvað að prufa hana. Biscotti hefur reyndar aldrei verið í uppáhaldi hjá mér, hefur alltaf fundist það of hart og of þurrt. En ég verð að segja að þessi uppskrift breytti því algjörlega, hún var alveg þess virði.

Það tekur enga stund að búa til deigið en það er smá dund við það að baka biscotti, kannski þess vegna sem þær eru svona góðar :) Ég breytti ýmsu frá ensku uppskriftinni og því kem ég hér með uppskriftina "mína"

3 1/4 bolli    hveiti
1 msk.         lyftiduft
1/3 tsk.        salt
1 1/2 bolli    sykur
150 gr.        smjör (brætt)
3  stk.          stór egg
2 tsk.           vanilludropar
2 msk.         safi úr appelsínu
1 msk.         appelsínubörkur
1 bolli          möndlur (ég notaði heilar og saxaði þær niður)

1 stk.           eggjahvíta

Hitið ofninn í 180°C.

Sigtið saman hveiti, lyftiduft og salt í eina skál.
Hrærið saman í aðra skál, sykur, brætt smjör, 3 egg, vanilludropar, appelsínusafi og appelsínubörkur.
Bætið hveiti blöndunni í skálina með eggjablöndunni og hrærið saman með tré skeið þangað til allt er vel blandað saman (ef deigið er of blautt, bætið þá aðeins meira hveiti við) og svo er söxuðu möndlunum bætt saman við deigið.

Skiptið deiginu í 2 hluta. Búið til 2 lengjur (ca. 34 cm á lengd og 8 cm á breidd) og setijð á bökunarpappír með ágætt bil á milli. Hrærið svo eggjahvítuna þangað til hún er orðin froðukennd og penslið yfir lengjurnar.

Bakið í ca. 30 mín. eða þangað til deigið er orðið gullin brúnt á lit.
Kælið þá lengjurnar í ca. 25 mín. (ekki slökkva á ofninum) og skerið þær svo í ca. 1 1/2 cm. breiðar sneiðar. Raðið þá lengjunum á bökunarpappírinn aftur og bakið í ca.12 mín. snúið þá biscotti-inu við og bakið í 8 mín. í viðbót.

Yndislega góðar með kaffi eða tei :)

                                                 Innihaldið :)


                                           Yndislegt að dýfa í kaffið.
                                               Einnig sniðugt til að gefa.

Fyrsta bloggið

Ég hef lengi haft mikinn áhuga á mat og langaði að prófa að búa til blogg, blogg sem fjallar um góðan mat og uppskriftir. Mig langar að prufa nýjar uppskriftir og deila með ykkur, ásamt mínum uppáhalds uppskriftum. Ef til vill mun ekki allt fjalla um mat en það kemur allt í ljós með tímanum :)